Þannig verða ESB-reglur að EES-reglum
Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið (EES-samningurinn) gerir Íslandi, Liechtenstein og Noregi (EES-EFTA-ríkin) kleift að taka þátt í innri markaði ESB. Undir efnissvið samningsins falla frjálsir vöruflutningar, frjáls þjónustustarfsemi, frjálsir fjármagnsflutningar og frjáls för fólks, sem og reglur á sviði samkeppni og ríkisaðstoðar, ásamt samvinnu á tilteknum sviðum, m.a. á sviði neytendaverndar, umhverfismála, heilbrigðismála og menntunar, sem tryggir að innri markaðurinn starfi eðlilega.
Svo lagagerð sem ESB setur geti öðlast gildi í EES-EFTA-ríki þarf sameiginlega EES-nefndin að samþykkja ákvörðun um að taka hana upp í EES-samninginn. Markmiðið er að taka lagagerðir upp í EES-samninginn eins nálægt gildistökudegi þeirra í ESB og mögulegt er svo tryggt sé að sömu reglur gildi á öllu EES-svæðinu.
EES-EFTA-ríkin taka þátt í mótun löggjafar ESB
Þegar framkvæmdastjórn ESB metur hvort þörf sé á nýrri löggjöf sem varðar innri markaðinn taka sérfræðingar frá EES-EFTA-ríkjunum þátt í ferlinu. Þeir leggja sitt af mörkum með tæknilegri sérþekkingu sinni og benda á hugsanleg álitamál fyrir EES-EFTA-ríkin.
Þátttaka í starfi sérfræðingahópa og nefnda á vegum ESB
Þegar framkvæmdastjórn ESB undirbýr lagasetningu eru drög að henni rædd innan sérfræðingahópa og nefnda þar sem EES-EFTA-ríkin taka þátt í umræðunni, þó án atkvæðisréttar.
Almennt
EES-samningurinn veitir sérfræðingum EES-EFTA-ríkjanna rétt til að taka þátt í starfi sérfræðingahópa, málsmeðferðarnefnda og áætlunarnefnda. framkvæmdastjórnar ESB. EES-EFTA-ríkin geta komið athugasemdum sínum við tillögur að nýrri löggjöf og frumvörp á framfæri við stofnanir ESB. EES-EFTA-ríkin senda framkvæmdastjórn ESB líka innlenda sérfræðinga til starfa.
EFTA-skrifstofan
Þegar framkvæmdastjórnin leggur fram til umfjöllunar tillögur sem varða EES upplýsir EFTA-skrifstofan EES-EFTA-ríkin um það.
Ísland
Á þessu stigi koma ráðuneytin sem bera ábyrgð á viðkomandi málefnasviði, utanríkisráðuneytið, skrifstofa forsætisráðherra og sendiráð Íslands í Brussel að málsmeðferðinni á Íslandi. Utanríkisráðuneytið skipuleggur reglulega samráð við hagsmunaaðila og gerir grein fyrir álitaefnum fyrir utanríkismálanefnd Alþingis, ef óskað er eftir því. Á hverju hausti er settur saman forgangslisti yfir hagsmunamál sem ríkisstjórnin samþykkir.
Liechtenstein
Á þessu stigi kemur samræmingardeild vegna EES í Liechtenstein að málsmeðferðinni, viðkomandi EES-sérfræðingar innan stjórnsýslu Liechtenstein og EES-tengiliður sem hagsmunaaðilar tilnefna fyrir hvert málefnasvið. Tvisvar á ári upplýsir samræmingardeildin vegna EES ríkisstjórnina um mikilvægar tillögur ESB og álitamál sem varða EES.
Noregur
Á þessu stigi koma ráðuneyti sem ábyrg eru fyrir viðkomandi málefnasviði, viðeigandi skrifstofur og stofnanir, utanríkisráðuneytið og sérstök nefnd sem annast afgreiðslu EES-málefna (n. Spesialutvalg) að málsmeðferðinni í Noregi. Tvisvar á ári upplýsir ríkisstjórnin norska þingið um mikilvægar tillögur ESB og álitamál sem varða EES.
Mat snemma í ferlinu og athugasemdir EES-EFTA-ríkjanna
Þegar framkvæmdastjórnin hefur gefið út drög að nýrri löggjöf er það hlutverk EES-EFTA-vinnuhópanna eða -sérfræðingahópanna að meta hvort þau feli í sér sérstök viðfangsefni tengd EES (e. EEA challenges). Á meðan á lagasetningarferlinu stendur innan ESB geta þeir jafnframt látið í ljós stuðning og borið upp álitamál með EES-EFTA-umsögn (e. EEA EFTA Comment).
Tímalína
Sérfræðingar í vinnuhópum eða sérfræðingahópum á vegum EFTA hafa sex vikna frest til að vinna snemmbúið mat á drögum ESB að nýrri löggjöf. Þurfa þeir að fylla út og skila EFTA-skrifstofunni sérstöku eyðublaði um viðkomandi drög framkvæmdastjórnarinnar.
EFTA-skrifstofan
Þegar drög framkvæmdastjórnar ESB að nýrri löggjöf hafa verið gefin út metur EFTA-skrifstofan til bráðabirgða hvort hugsanlega sé um að ræða altæk viðfangsefni (e. horizontal challenges) sem varða EES-samninginn og sendir niðurstöðu matsins síðan til sérfræðinga EES-EFTA-ríkjanna. Ákveði sérfræðingarnir að gera athugasemdir af hálfu EES-EFTA-ríkjanna sér EFTA-skrifstofan um að samræma drög að athugasemdum ríkjanna.
Ísland
Að lokinni skráningu í EES-gagnagrunninn á Íslandi leggur ráðuneytið sem ber ábyrgð á viðkomandi málefnasviði mat á drögin að nýju löggjöfinni og upplýsir EFTA-skrifstofuna og hin EES-EFTA-ríkin um niðurstöðuna. Lagagerðir sem kalla á tilkynningu um stjórnskipuleg skilyrði eru auðkenndar eins snemma og hægt er svo svigrúm skapist til að þýða viðkomandi gerðir og hafa samráð við Alþingi.
Liechtenstein
Í EES-gagnagrunni Liechtenstein er skráning og yfirlit yfir allt sem viðkemur málsmeðferðinni og lagasetningarferlinu, aðilana sem eru ábyrgir í hverju tilviki og tímaáætlanir. Sú skrifstofa sem um ræðir leggur mat á drög framkvæmdastjórnarinnar í samráði við samræmingardeild vegna EES og upplýsir EFTA-skrifstofuna um niðurstöðuna.
Noregur
Öll drög að nýrri löggjöf sem varðar EES eru skráð í norska EES-gagnagrunninn. Ráðuneytið sem ber ábyrgð á viðkomandi málefnasviði annast matið á drögunum og upplýsir EFTA-skrifstofuna um niðurstöðuna.
EES-EFTA-ríkin samþykkja drög ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar um að taka lagagerð upp í EES-samninginn
Þegar ESB hefur samþykkt lagagerð sem fellur undir efnislegt gildissvið EES-samningsins byrjar EFTA-skrifstofan málsmeðferðina við upptöku hennar í samninginn. EES-EFTA-ríkin komast að samkomulagi um drög ákvörðunar sem tekur lagagerðina upp í EES-samninginn, að loknu samráði við sérfræðinga.
Sérfræðingar leggja mat á lagagerðina
Vinnu- eða sérfræðingahópar EFTA leggja mat á það hvort lagagerðin hafi þýðingu að því er varðar efnislegt gildissvið EES-samningsins og hvort í henni séu ákvæði sem kalla á aðlögun vegna sérstakra innlendra aðstæðna eða með tilliti til EES-samningsins.
Tímalína
- Hjá EFTA-skrifstofunni annast sérstakur skrásetjari auðkenningu og skráningu birtra lagagerða innan 1 viku frá birtingu þeirra.
- Stöðluð málsmeðferð – 16 vikna frestur fyrir EES-EFTA-ríkin til að leggja fram staðalskjal.
- Flýtimeðferð – 6 vikna þegjandi samþykki
EFTA-skrifstofan
Þegar ESB hefur látið birta nýja lagagerð byrjar EFTA-skrifstofan málsmeðferðina við upptöku hennar í EES-samninginn. Málsmeðferðin er mismunandi eftir eðli og inntaki lagagerðarinnar. Í öllum tilvikum er um að ræða nákvæma yfirferð og samþykki af hálfu EES-EFTA-ríkjanna.
Málsmeðferð í EES-EFTA-ríkjunum
Þegar upptökuferlið er komið af stað byrja EES-EFTA-ríkin sína eigin málsmeðferð innanlands. Málsmeðferðin er mismunandi í ríkjunum þremur og veltur á eðli og inntaki lagagerðanna.
Ísland
Sérfræðingar leggja mat á hvort lagagerðin hafi þýðingu að því er varðar efnislegt gildissvið EES-samningsins og hvort Ísland þurfi að fara fram á aðlögun. Í sumum tilvikum þarf að hafa samráð við Alþingi.
Liechtenstein
Sérfræðingar leggja mat á, í samráði við samræmingardeild vegna EES hvort lagagerðin hafi þýðingu að því er varðar efnislegt gildissvið EES-samningsins og hvort Liechtenstein þurfi að fara fram á aðlögun.
Noregur
Sérfræðingar leggja mat á hvort lagagerðin hafi þýðingu að því er varðar efnislegt gildissvið EES-samningsins og hvort Noregur þurfi að fara fram á aðlögun. Sérstök nefnd sem annast afgreiðslu EES-málefna tryggir samstarf á milli ráðuneyta. Viðeigandi stofnun eða skrifstofa annast samráðið við hagsmunaaðila.
Drög að ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar samþykkt
EFTA-skrifstofan útbýr drög að ákvörðunum um að taka lagagerðir upp í EES-samninginn, í samræmi við endurgjöf EES-EFTA-ríkjanna. EES-EFTA-ríkin fá drögin send til staðfestingar.
Tímalína
EFTA-skrifstofan hefur 1 viku til að útbúa drög að ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar sem ekki eru með aðlögunartexta og 4 vikur til að útbúa drög ákvarðana sem innihalda aðlögunartexta.
Samþykkt sérfræðinga á drögum að ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar (ef þörf er á) – frestur 2 vikur.
Samþykkt undirnefnda á drögum að ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar – frestur 2 vikur.
EFTA-skrifstofan
EFTA-skrifstofan útbýr drög að ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar og er það gert á grundvelli viðbragða frá sérfræðingum í ríkjunum þremur. Þegar öll þrjú EES-EFTA-ríkin hafa samþykkt drög viðkomandi ákvarðana eru þau send allsherjarsviði framkvæmdarstjórnar ESB svo ESB geti farið ítarlega yfir þau á sínum vettvangi. Ef EES-EFTA-ríkin hyggjast fara fram á efnislega aðlögun geta sérfræðingar ráðfært sig óformlega við viðkomandi stjórnarsvið framkvæmdastjórnarinnar (Directorate-General (DG)) áður en drög ákvarðananna eru send formlega.
Ísland
Á þessu stigi hafa ráðuneyti sem bera ábyrgð á viðkomandi málefnasviði og utanríkisráðuneytið samstarf um að afgreiða ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar.
Liechtenstein
Á þessu stigi hafa sérfræðingar og samræmingardeild vegna EES samráð um að afgreiða ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar.
Noregur
Á þessu stigi hefur sérnefndin sem annast afgreiðslu EES-mála þegar samþykkt drög að ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar. Drögin þarfnast því einungis lokayfirferðar þess ráðuneytis sem ber ábyrgð á viðkomandi málefnasviði áður en utanríkisráðuneytið afgreiðir þau.
ESB yfirfer og staðfestir drög ákvarðana
sameiginlegu EES-nefndarinnar
Þegar EES-EFTA-ríkin hafa samþykkt drög ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar sendir EFTA-skrifstofan þau til allsherjarsviði framkvæmdarstjórnar ESB. Allsherjarsvið framkvæmdasjtórnarinnar samræmir upptökuferlið vegna EES af hálfu ESB.
Framkvæmdastjórn ESB
Allsherjarsvið framkvæmdasjtórnarinnar hefur samráð við viðeigandi stjórnarsvið framkvæmdastjórnarinnar um drög að ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar. Sé ekki gert ráð fyrir efnislegri aðlögun og drög ákvörðunar rýmkar einungis gildissvið ESB lagagerðar svo það taki líka til EES-svæðisins er utanríkisþjónustu ESB heimilt að samþykkja þau fyrir hönd ESB og lýkur umsagnarferlinu þar með á því stigi. Fari ESB fram á að breytingar verði gerðar á drögunum hefjast viðræður með það að markmiði að komast að sameiginlegri niðurstöðu.
Tímalína
Afgreiðsla á drögum að ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar sem ekki fela í sér aðlögun tekur um það bil 3 vikur.
ESB
Allsherjarsvið framkvæmdasjtórnarinnar samræmir upptökuferlið af hálfu ESB. Ef drög ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar rýmka einvörðungu gildissvið lagagerðar ESB svo hún taki til EES líka er utanríkisþjónustu ESB heimilt að samþykkja þau fyrir hönd ESB í sameiginlegu EES-nefndinni.
EFTA-skrifstofan
Þegar EES-EFTA-ríkin hafa samþykkt drög að ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar sendir EFTA-skrifstofan þau til allsherjarsviðs framkvæmdastjórnarinnar.
Þurfi að breyta drögum að ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar, meðan á samráðsferlinu við ESB stendur, samræmir EFTA-skrifstofan samráðsferlið af hálfu EFTA og uppfærir drögin til samræmis við það. Allsherjarsvið framkvæmdastjórnarinnar samræmir samráðsferlið af hálfu ESB.
Ráð ESB
Feli drög að ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar í sér efnislega aðlögun eða fjárhagsleg áhrif, verður ráð Evrópusambandsins að veita allsherjarsviði framkvæmdastjórnarinnar umboð til að samþykkja þau.
Tímalína
Afgreiðsla á drögum að ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar sem felur í sér efnislega aðlögun tekur um það bil 3-6 mánuði.
ESB
Feli drög að ákvörðun EES-nefndarinnar í sér efnislega aðlögun þarf ráðið að samþykkja afstöðu ESB varðandi drögin. Framkvæmdastjórnin leggur fram drög að ákvörðun ráðsins með drög að ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar í viðauka. Ráðið samþykkir þau og veitir allsherjarsviði framkvæmdastjórnarinnar utanríkiþjónustu umboð, af hálfu ESB, til að samþykkja ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar ásamt EES-EFTA-ríkjunum í sameiginlegu EES-nefndinni.
EFTA-skrifstofan
Þurfi að breyta drögum að ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, meðan á samráðsferlinu við ESB stendur, samræmir EFTA-skrifstofan samráðsferlið af hálfu EFTA-ríkjanna og uppfærir drögin til samræmis við það. Allsherjarsvið framkvæmdastjórnar ESB samræmir samráðsferlið af hálfu ESB.
Sameiginlega EES-nefndin samþykkir ákvörðun
Þegar báðir aðilar hafa lokið samþykkisferlinu fyrir sitt leyti samþykkir sameiginlega EES-nefndin ákvörðunina sem tekur viðkomandi lagagerð upp í EES-samninginn.
Listi yfir gerðir sem tilbúnar eru til upptöku
EES-EFTA-ríkin og ESB koma sér saman um lista yfir drög að ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar sem tilbúnar eru til samþykkis og setja þær á dagskrá næsta fundar sameiginlegu EES-nefndarinnar.
EFTA-skrifstofan
Fyrir hvern fund sameiginlegu EES-nefndarinnar samræmir EFTA-skrifstofan tilurð lista yfir lagagerðir sem tilbúnar eru til upptöku í EES-samninginn á fundinum. Í þessum hluta ferlisins eru utanríkisráðuneyti Íslands og Noregs, samræmingardeild vegna EES í Liechtenstein og allsherjarsvið framkvæmdastjórnar ESB einnig með í ráðum.
Ísland
Utanríkisráðuneytið hefur samráð við ráðuneyti sem bera ábyrgð á viðkomandi málefnasviði og sendir athugasemdir til EFTA-skrifstofunnar varðandi lista yfir lagagerðir sem eru tilbúnar til upptöku í EES-samninginn. Utanríkisráðuneytið tilkynnir ríkisstjórninni um lagagerðir sem eru tilbúnar til upptöku í EES-samninginn og ríkisstjórnin heimilar að samsvarandi ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar verði samþykktar. Mögulegt er að ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar sem eru sérstaklega mikilvægar fari fyrir utanríkismálanefnd Alþingis til samráðs.
Liechtenstein
Samræmingardeild vegna EES sendir, í samráði við sérfræðinga í EFTA-vinnuhópunum, athugasemdir til EFTA-skrifstofunnar varðandi lista yfir gerðir sem tilbúnar eru til upptöku í EES-samninginn. Hún upplýsir einnig þingmannanefnd EES, sem fer ítarlega yfir allar ESB lagagerðir sem taka á upp í EES-samninginn.
Fyrir fund sameiginlegu EES-nefndarinnar samþykkir ríkisstjórnin fyrir sitt leyti ákvörðun sem hefur til hliðsjónar listann yfir ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar sem tilbúnar eru til samþykktar.
Noregur
Utanríkisráðuneytið sendir athugasemdir til EFTA-skrifstofunnar varðandi lista yfir lagagerðir sem eru tilbúnar til upptöku í EES-samninginn, að höfðu samráði við ráðuneyti sem bera ábyrgð á viðkomandi málefnasviðum. Fyrir hvern fund sameiginlegu EES-nefndarinnar heldur ráðherrann sem ber ábyrgð á EES málefnum fund með ráðgjafarnefnd Evrópumála á norska þinginu, sem gefur álit sitt á viðkomandi lista yfir lagagerðir. Ríkisstjórnin getur ekki samþykkt upptöku lagagerðar í EES-samninginn fyrr en nefndin hefur komið sjónarmiðum sínum á framfæri.
Samþykkt ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar
Sameiginlegu EES-nefndinni er ætlað að tryggja virka framkvæmd EES-samningsins og kemur hún saman sex til átta sinnum á ári. Hún er vettvangur skoðanaskipta ESB og EES-EFTA-ríkjanna sem taka ákvarðanir með samkomulagi, þar samningsaðilarnir mæla einum rómi, um að taka ESB lagagerðir upp í EES-samninginn.
Gildistaka ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar
Ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar taka að jafnaði gildi einum degi eftir að þær eru samþykktar í sameiginlegu EES-nefndinni, nema tilkynnt hafi verið um stjórnskipuleg skilyrði. Þegar ákvarðanirnar hafa öðlast gildi eru viðaukar eða bókanir við EES-samninginn uppfærðar til samræmis við það og þá verður jafnframt að gera lagagerðirnar sem búið er að taka upp í samninginn hluta af réttarkerfi EES-EFTA-ríkjanna.
Stjórnskipuleg skilyrði uppfyllt
Samkvæmt stjórnarskrám EES-EFTA-ríkjanna þarf ákvörðun sem felur í sér breytingar á innlendri löggjöf að hljóta samþykki þjóðþinganna áður en hún tekur gildi. Ákvörðun sem tekin er með slíkum fyrirvara um uppfyllingu stjórnskipulegra skilyrða tekur gildi um leið og skilyrðin hafa verið uppfyllt í öllum þremur EES-EFTA-ríkjunum.
Almennt
Ef lagagerð sem kallar á breytingar á innlendri löggjöf er tekin upp í EES-samninginn er samþykki þjóðþings nauðsynlegt áður en hún getur tekið gildi og á það við um öll EES-EFTA-ríkin. Er þetta nefnt „stjórnskipuleg skilyrði“, eða fyrirvari um samþykki þjóðþingsins, og tilkynnt af hálfu EES-EFTA-ríkjanna í sameiginlegu EES-nefndinni þegar lagagerð er tekin upp í samninginn. EES-EFTA-ríkin hafa sex mánaða frest til fá samþykki viðkomandi þjóðþings.
EFTA-skrifstofan
EFTA-skrifstofan hefur eftirlit með gildistöku lagagerða á EES-svæðinu og umsjón með tilkynningum um að stjórnskipuleg skilyrði hafi verið uppfyllt. Þegar samþykki viðkomandi þjóðþings liggur fyrir tilkynnir EES-EFTA-ríkið EFTA-skrifstofunni um það og sendir sú síðarnefnda upplýsingarnar þá allsherjarsviðs framkvæmdastjórnar ESB, hinna EES-EFTA-ríkjanna og Eftirlitsstofnunar EFTA. Þegar síðasta EES-EFTA-ríkið hefur tilkynnt að stjórnskipuleg skilyrði hafi verið uppfyllt getur viðkomandi ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar öðlast gildi.
EFTA-skrifstofan ber ábyrgð á þýðingu ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar yfir á íslensku og norsku og birtingu þeirra í EES-viðbætinum.
Ísland
Á Íslandi samþykkir Alþingi gildistöku ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar með þingsályktun.
Liechtenstein
Í Liechtenstein samþykkir þingið gildistöku ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar á grundvelli sérstaks stjórnarfrumvarps. Þegar þingið hefur samþykkt frumvarpið fer fram þjóðaratkvæðagreiðsla sem stendur í 30 daga og að því búnu þarf undirritun furstans í Liechtenstein.
Noregur
Í Noregi samþykkir þingið gildistöku ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar með þingsályktun. Þingsályktunin er lögð fyrir þingið ásamt frumvarpi til laga um að taka viðkomandi lagagerð upp í norskan rétt. Staðfesta verður samþykkt þingsins með konungsúrskurði sem lagður er fram í ríkisráðinu.
EES-EFTA-ríkjunum er skylt að innleiða gerðir
sem hafa verið teknar upp í EES-samninginn
Skylt er að innleiða gerðir, sem hafa verið teknar upp í EES-samninginn og hafa öðlast gildi, í innlendan rétt EES-EFTA-ríkjanna. Eftirlitsstofnun EFTA hefur eftirlit með því að farið sé eftir löggjöf sem er tekin upp í EES-samninginn. EFTA-dómstóllinn í Lúxemborg hefur lögsögu til að dæma í samningsbrotamálum sem höfðuð eru gegn EES-EFTA-ríkjunum þremur vegna vanefnda þeirra á skuldbindingum sínum samkvæmt EES-samningnum.
EFTA-skrifstofan
Að loknum hverjum fundi sameiginlegu EES-nefndarinnar tilkynnir EFTA-skrifstofan Eftirlitsstofnun EFTA um þær ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar sem hafa öðlast gildi.
Ísland, Liechtenstein og Noregur
Stjórnvöld á Íslandi og í Noregi bera ábyrgð á þýðingu lagagerða sem hafa verið teknar upp í EES-samninginn yfir á íslensku og norsku. Liechtenstein notar þýsku útgáfuna sem ESB lætur í té.